Lífið

Farðaði stórstjörnurnar í Forbrydelsen

á mála hjá Forbrydelsen Hjónin Áslaug Dröfn og Steffen Wiederman komu bæði að gerð annarrar seríunnar um Söruh Lund í Forbrydelsen.Fréttablaðið/Anton
á mála hjá Forbrydelsen Hjónin Áslaug Dröfn og Steffen Wiederman komu bæði að gerð annarrar seríunnar um Söruh Lund í Forbrydelsen.Fréttablaðið/Anton

Áslaug Dröfn Sigurðardóttir, hárgreiðslu- og förðunarfræðingur, sá um förðun á helstu stórstjörnum sakamálaþáttarins Forbrydelsen II (Glæpnum) sem nú slær öll áhorfsmet í dönsku sjónvarpi. Þetta er önnur þáttaröðin um lögreglukonuna Söruh Lund en fyrri þáttaröðin naut mikilla vinsælda hér á landi á sínum tíma.

„Þetta vildi þannig til að maðurinn minn, Steffen Wiederman Larsen, er að vinna við þættina. Og þegar ein af þremur förðunarstelpunum forfallaðist vegna veikinda mundi einhver eftir því að Steffen væri giftur förðunarfræðingi,“ segir Áslaug, sem fékk því heldur óvænt atvinnutilboð á föstudegi í sumar þegar tökurnar fóru fram. „Mér var bara sagt að koma út á mánudegi og ekki getur maður sagt nei við svona tilboði.“

Meðal þeirra sem settust í stólinn hjá Áslaugu voru aðalleikarnir tveir, þau Sofie Gråbøl og Mikael Birkkjær. Auk þeirra voru þeir Nicolas Bro og Søren Pilmark meðal gesta hennar. Báðir tveir léku stór hlutverk í kvikmynd Dags Kára, Voksne mennesker. Áslaug var í förðunarteyminu í þremur þáttum og segir þetta hafa verið alveg ótrúlega skemmtilegt. „Ég var reyndar ekki orðin nógu sleip í dönskunni og ruglaði einu sinni saman orðunum terrorister og túristi með nokkuð skondnum afleiðingum.“

En ákveðin togstreita er nú kominn upp á heimili þeirra hjóna því eiginmaðurinn veit hver morðinginn er. „Ég hef reynt að pína það upp úr honum en hann brosir bara og segir mér að fylgjast með. Ég hef samt mínar kenningar og þótt ég hóti honum öllu illu er hann þögull sem gröfin.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.