Körfubolti

Sex milljón króna sigur

George Karl var ekki hrifinn af dómgæslunni í nótt
George Karl var ekki hrifinn af dómgæslunni í nótt Nordic Photos/Getty Images

Leikmenn Denver Nuggets voru mjög ósáttir við dómgæsluna í nótt sem leið þegar þeir töpuðu 103-94 fyrir LA Lakers í fimmta leik liðanna í úrslitarimmu Vesturdeildarinnar í NBA.

Með sigrinum komst Lakers-liðið í 3-2 í einvíginu og getur tryggt sér sæti í lokaúrslitunum annað árið í röð með sigri í Denver í næsta leik.

Phil Jackson þjálfari LA Lakers gagnrýndi dómara harðlega eftir fjórða leikinn í Denver og uppskar ríflega þriggja milljóna króna sekt. Félagið var einnig dæmt til að greiða sömu upphæð og því þurftu Lakers-menn að borga rúmar sex milljónir króna fyrir gagnrýni sína.

Ónefndur leikmaður Denver var að sama skapi hundfúll með dómgæsluna í fimmta leiknum í nótt og sagði að Lakers-liðið hefði keypt sér sigur með sektunum.

"Þeir borguðu sex milljónir fyrir sigur í fimmta leiknum. Þeir fengu sannarlega mikið fyrir peninginn," sagði leikmaðurinn í samtali við Denver Post, en vildi eðlilega ekki láta nafns síns getið.

Það verður reyndar að segjast alveg eins og er að dómgæslan í leiknum í nótt var á köflum nokkuð undarleg, en það var alls ekki í fyrsta skipti sem dómararnir eru í aðalhlutverki í þessari úrslitakeppni.

Phil Jackson var reyndar spurður að því fyrir fimmta leikinn hvort hann hefði verið að planta fræjum í höfuðið á dómurum með gagnrýni sinni eftir fjórða leikinn, en hann sló spurningunni upp í grín.

"Ég er garðyrkjumaður. Mér finnst gaman að planta fræjum og er alltaf að því," sagði Jackson.

George Karl, þjálfari Denver, var ekki í vafa þegar hann var spurður um sína skoðun á málinu.

"Mér fannst dómararnir flauta með þeim," sagði Karl. "Það er mikil gremja í okkar herbúðum."

Sjötti leikur liðanna er í Denver annað kvöld og er sýndur beint á Stöð 2 Sport um klukkan eitt.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×