Innlent

Bílstjórinn verður ákærður

Ökumaður Hummer jeppa verður ákærður.  Myndin tengist fréttinni ekki að beinu leyti.
Ökumaður Hummer jeppa verður ákærður. Myndin tengist fréttinni ekki að beinu leyti. Fréttablaðið/vilhelm

Bílstjórinn sem grunaður var um að hafa ekið á mann á Laugaveginum um helgina, hefur játað að hafa verið undir stýri og verður ákærður, segir Margeir Sveinsson, lögreglufulltrúi yfir rannsóknardeild umferðarmála hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Maðurinn, sem ekið var á, var á gjörgæslu Landspítala í gær og er haldið sofandi í öndunarvél. Hann er mjög alvarlega slasaður, að sögn læknis.

Bílstjórinn er grunaður um að hafa ekið of hratt og ölvaður niður Laugaveginn.

Þar er 30 kílómetra hámarkshraði. Hann er Íslendingur á þrítugsaldri og ók Hummer-jeppa, sem eru tiltölulega stór og þung ökutæki.

Eftir því sem næst verður komist játaði maðurinn ekki að hafa verið ölvaður og verður blóðsýni úr honum sent til Noregs til frekari rannsóknar, og má búast við því að það taki um mánuð að fá niðurstöður úr henni. Meintur of hraður akstur bíður einnig frekari rannsóknar.

Ökumaðurinn stakk af frá vettvangi, án þess að hjálpa hinum slasaða. Lögreglan hafði hendur í hári ökumannsins skömmu síðar. Vitni voru að ákeyrslunni. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×