Enski boltinn

Ferguson: Macheda ætlaði að skora

AFP

Einhverjir kunna að ætla að sigurmarkið sem Federico Macheda skoraði fyrir Manchester United gegn Sunderland í dag hafi verið hundaheppni. Ekki Alex Ferguson.

Annan deildarleikinn í röð komst ítalski táningurinn á forsíður blaða fyrir að skora sigurmark United í erfiðum leikjum í toppbaráttunni. Macheda breytti stefnu markskots Michael Carrick sem hafnaði í netinu stundarfjórðungi fyrir leikslok.

"Hann hefur eitthvað sérstakt við sig," sagði Ferguson um Macheda. "Einn af leikmönnunum sagði meira segja að hann hefði ætlað að gera þetta. Hann tók boltann utanfótar og það er svona viðbragð sem markaskorarar hafa í sér. Hann er bara með þessa eðlisávísun," sagði Ferguson.

"Macheda þekkir sitt hlutverk. Við viljum að hann stingi sér inn fyrir varnir andstæðinganna. Hann er með góðar hreyfingar og hraða og sýndi það þegar hann kom inná. Hann lét ekkert trufla sig og hafði strax mikil áhrif á leikinn. Hann skilað góðum 20 mínútum," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×