Fótbolti

Kalou slóst við liðsfélaga á landsliðsæfingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Salomon Kalou í leik með Chelsea.
Salomon Kalou í leik með Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Góðar líkur eru á því að þeir Salomon Kalou og Abdoulaye Meite missi af landsleik Fílabeinsstrandarinnar gegn Þýskalandi annað kvöld eftir að þeir slógust á landsliðsæfingu.

Hvorugur fékk að spila með Fílabeinsströndinni gegn Gíneu í undankeppni HM 2010 um helgina en atvikið átti sér stað daginn fyrir þann leik.

Þeir Kalou og Meite hafa nú sæst en svo gæti farið að forráðamenn landsliðsins ákveði engu að síður að þeir fái ekki að taka þátt í leiknum gegn Þjóðverjum á morgun.

„Við erum mennskir og svona lagað gerist," sagði Meite sem leikur með West Bromwich Albion. „En við skiljum að liðsheildin er mikilvægari og er þetta því allt gleymt og grafið."

Kalou tók í svipaðan streng. „Ég bað hann afsökunar og hann tók afsökunarbeiðni mína gild. Okkur hefur verið refsað og tek ég við þeirri refsingu. Maður gerir sín mistök og heldur áfram."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×