Fótbolti

Markvörðurinn skoraði dýrmætt jöfnunarmark

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sinan Bolat skorar hér jöfnunarmarkið dýrmæta í leiknum í kvöld.
Sinan Bolat skorar hér jöfnunarmarkið dýrmæta í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP

Það er nokkuð algeng sjón að sjá markverði í sóknum sinna liða í lok þýðingarmikilla leikja. Það bar árangur þegar að Standard Liege og AZ Alkmaar mættust í H-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld.

Liðin voru að berjast um þriðja sæti riðilsins og þar með þátttökurétt í Evrópudeildinni eftir áramót.

Standard dugði jafntefli til að tryggja sér þriðja sæti riðilsins en AZ komst yfir á 42. mínútu leiksins með marki Jermain Lens.

Þannig stóðu leikar lengi vel og fram í uppbótartíma leiksins. Þá skellti markvörður Standard, Tyrkinn Sinan Bolat, sér í sóknina þegar liðið fékk hornspyrnu. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði glæsilegt mark með skalla.

Heimamenn fögnuðu því afar mikilvægu stigi en Hollendingarnir sátu eftir með sárt ennið og eru úr leik í Evrópukeppninni í vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×