Innlent

Pólitíkin réði fyrirtöku AGS að lokum

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir ræddu við blaðamenn um frestun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundi í stjórnarráðinu í gær. Mynd/GVA
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir ræddu við blaðamenn um frestun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fundi í stjórnarráðinu í gær. Mynd/GVA

„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur aldrei verið með hótanir í mín eyru,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir á blaðamannafundi í gær spurð hvort AGS hafi haft í hótunum við íslensk stjórnvöld um að fyrirtaka sjóðsins myndi frestast ef ekki yrði gengið frá Icesave.

AGS hefur ákveðið að taka ekki fyrir endurskoðun efnahags-áætlunar Íslands áður en hann fer í tveggja vikna sumarleyfi 7. ágúst. Taka átti endurskoðunina fyrir næsta mánudag en hún er forsenda frekari lánveitinga frá AGS. Ástæða þessa er að lán frá Norðurlöndunum hafa ekki verið tryggð. Þetta var íslenskum stjórnvöldum kynnt munnlega á fimmtudagskvöldið.

Steingrímur J. Sigfússon segir að forsenda lánveitinga frá Norðurlöndum hafi verið að Ice-save-frumvarpið verði samþykkt. „Í greinargerð sænska þingsins vegna lánsins er gert ráð fyrir því að Icesave verði samþykkt,“ segir Steingrímur. Ef Norðurlöndin hefðu veitt lánin er ljóst að Bretar og Hollendingar, sem augljóslega voru á móti fyrirtöku Íslands vegna Icesave, hefðu ekki getað stöðvað hana einir og sér, að mati Steingríms.

En eru Norðurlöndin að kúga Ísland? „Nei, það er ekki mitt mat. Við verðum að sýna þeim skilning þar sem þau eru stærstu fjármögnunaraðilar þessarar hjálpar,“ segir Steingrímur. Hins vegar er ljóst, að mati Steingríms, að Svíar eru í miklum samskiptum við Breta og Hollendinga þar sem þeir fara með forsæti í ESB. Norðurlöndin hafa lofað 2,5 milljarða dala láni á meðan AGS hefur lofað 2,1 milljarði dala til að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.

„Gjaldeyrisvaraforðinn er sterkur og ég trúi og treysti á að þetta hafi ekki áhrif á lánshæfis-mat íslenska ríkisins og lækkun stýrivaxta,“ segir Jóhanna og telur þetta lítil áhrif hafa á gengið sem sé mjög lágt um þessar mundir.

Frestunin hefur ekki áhrif á endurreisn bankanna eða stöðugleikasáttmálann, að mati Steingríms og Jóhönnu. Þó geti þetta haft áhrif ef fyrirtakan dregst mikið lengur en til loka ágúst. „Öll markmið sem Ísland átti að uppfylla hafa stjórnvöld staðið við,“ segir Jóhanna og finnst bagalegt að svona hafi farið. Vonir standa til þess að endurskoðun fari fram í lok ágúst. Engin loforð eru þó um slíkt af hálfu AGS.

Steingrímur segir að frestunin hafi ekki áhrif á samstarf Íslands og AGS. Þau haldi því ótrauð áfram. AGS hafi verið viljugur að taka fyrir málefni Íslands. „Póli-tíkin réði þessu að lokum,“ segir Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×