Markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir átti frábæran leik fyrir Stjörnuna í 2-2 jafnteflinu gegn Val á Vodafonevellinum í kvöld og hélt Stjörnustúlkum inni í leiknum og löngum köflum með frábærum vörslum.
„Það er alltaf gott að taka stig á útivelli og hvað þá að Hlíðarenda. Þær eru náttúrulega með frábært lið," segir Sandra.
Hún telur jafnteflið gegn Íslandsmeisturum Vals líka bera vott um framfarirnar hjá Stjörnustúlkum undanfarin misseri en Stjarnan tapaði til að mynda 8-0 gegn Val á Vodafonevellinum í fyrra sumar.
„Við erum náttúrulega búnar að styrkja leikmannahópinn frá því í fyrra og þá er umgjörðin mjög góð í kringum liðið og þjálfarateymið frábært. Þetta er bara mjög jákvætt fyrir okkur. Við ætluðum okkur að stefna hátt og standa okkur gegn stóru liðunum í deildinni og það hefur gengið eftir. Deildin er líka miklu jafnari en oft áður og það er aldrei að vita hvað gerist," segir Sandra.