Erlent

Grýtt í hel fyrir framhjáhald

Óli Tynes skrifar
Frá táknrænum mótmælum gegn því að grýta konur.
Frá táknrænum mótmælum gegn því að grýta konur.

Tuttugu og níu ára gömul sómölsk kona var í gær grýtt í hel fyrir að vera eiginmanni sínum ótrú. Hundruð manna fylgdust með aftökunni í þorpinu Eelbon í suðurhluta landsins.

Sómalskur embættismaður hefur staðfest þetta að sögn Ritzau fréttastofunnar. Ástmaður konunnar var ókvæntur. Hann var dæmdur til að þola eitthundrað vandarhögg.

Það voru múslimasamtökin al-Shabaab sem dæmdu konuna til dauða og sáu um aftökuna. Samtökin ráða lögum og lofum í suðurhluta Sómalíu og hin veikburða stjórnvöld geta ekkert að gert.

al-Shabaab samtökin vilja koma á öfgafyllstu túlkun sem til er af sharia lögum múslima. Bandaríkjamenn segja að samtökin séu í nánum tengslum við al-Kaida og að Sómalía sé að verða útungunarstaður fyrir hryðjuverkamenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×