Innlent

Nýr veðurgagnagrunnur tekinn í notkun

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra opnar í dag nýtt vefsvæði sem hlotið hefur nafnið Gagnatorg veðurupplýsinga. Á Gagnatorginu má með einföldum hætti nálgast allar veðurathuganir Veðurstofu Íslands sem skráðar eru í gagnagrunna hennar. Þessar athuganir taka til meira en 200 veðurstöðva víðsvegar um landið og ná í sumum tilvikum allt aftur til ársins 1931 að því er segir í tilkynningu en það eru fyrirtækin Reiknistofa í veðurfræði / Belgingur og DataMarket sem standa að þróun og rekstri Gagnatorgsins.

„Gagnatorgið gerir fræðimönnum, námsmönnum og áhugamönnum um veðurfar mun hægara um vik að nálgast þessar upplýsingar en hingað til hefur verið og við vonumst til að sjá mun stærri hóp vinna með og nýta þessi gögn en áður," segir ennfremur.

„Þannig sjáum við til dæmis fyrir okkur að nemendur muni nýta gagnatorgið til að fræðast um veðurfar í sinni heimabyggð og þróun þess undanfarna áratugi. Með tímanum stendur jafnframt til að nemendur og aðrir áhugamenn um veðurathuganir geti deilt sínum eigin mælingum með öðrum með hjálp Gagnatorgsins."

Notendur vefsins geta valið veðurstöðvar á korti eða flett þeim upp í lista, hakað við þær mælingar sem þeir hafa áhuga á að sjá og kallað þær fram fyrir valið tímabil. Gögnin má svo skoða hvort heldur er sem töflu eða á myndriti eða hala þeim niður til frekari úrvinnslu til dæmis í töflureikni líkt og Excel.

Gagnatorgið má nálgast á slóðinni vedur.datamarket.net.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×