Grolsch-léttöl fæst ekki í neinni af helstu matvöruverslunum landsins í dag, þrátt fyrir að auglýsingar frá Ölgerðinni um léttölið hafi sést undanfarið. Samkvæmt áfengislögum eru hvers konar auglýsingar á áfengi bannaðar.
Guðmundur B. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar, segir að léttölið eigi að vera til í búðunum en það gæti verið uppselt.
„Ég get ekki sagt til um hvernig dreifing vörunnar er. Grolsch-léttöl hefur ekki verið til í mjög langan tíma og síðan bjuggum við til léttöl og eigum von á meiru,“ segir Guðmundur sem telur þetta ekki brot á áfengislögum þar sem varan sé til. Hins vegar sé hún ekki í almennri dreifingu og því ekki til í verslunum eins og Bónus og Krónunni. - vsp