Viðskipti erlent

Statoil vill bora eftir olíu við Grænland

Norska olíufélagið Statoil hefur áhuga á að bora eftir olíu við Grænland. Ætlar félagið að taka þátt í útboðum á olíuvinnslu við landið en reiknað er með að slík útboð fari í gang innan þriggja ára.

Í frétt um málið á vefsíðu Dagens Næringsliv segir að misheppnuð tilraun Statoil til að finna olíu undan vesturströnd Grændlands árið 2000 minnki ekki áhuga Statoil á því að reyna aftur. Tilraunaborhola á þeim tíma reyndist „þurr" en félagið eyddi hátt í 8 milljörðum kr. í það verkefni.

„Við teljum að Grænland geti verið „heitur reitur"", segir Lars Troen Sörensen fjárfestatengill hjá Statoil í samtali við Dagens Næringsliv.

Þeirri skoðun deilir Sörsensen með Landfræðistofnun Bandaríkjanna, U.S. Geological Survey en árið 2007 gaf stofnunin út skýrslu um að það væru 31 milljarður tunna af olíu undir ísnum við Grænland. Verðmæti þess magns hleypur á yfir 2.000 milljörðum kr.

Ennfremur kom fram í skýrslunni að olían undir ísnum við austurströnd Grænlands væri álíka mikil og þriðjungur allrar olíu sem hefur fundist í Norðursjó. Ef þetta mat stofnunarinnar er rétt sitja Grænlendingar á níundu mestu olíubirgðum í heiminum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×