Lífið

Hetjudáð Fjölnis Þorgeirssonar á Animal Planet

Hetja að störfum Fjölnir Þorgeirsson vakti heimsathygli þegar hann stökk út í kalda tjörnina og hóf björgunaraðgerðir.mynd/jens einarsson
Hetja að störfum Fjölnir Þorgeirsson vakti heimsathygli þegar hann stökk út í kalda tjörnina og hóf björgunaraðgerðir.mynd/jens einarsson

„Þau höfðu víst séð þetta bæði á vefmiðlum og í fjölmiðlum og höfðu í kjölfarið samband við mig og vildu fá alla söguna. Þau ræddu einnig við Sigurbjörn Bárðarson og Sigga Sig og svo var gerður úr þessu sjónvarpsþáttur,“ segir kappinn Fjölnir Þorgeirsson, en sjónvarpsstöðin Animal Planet framleiddi þátt um björgunaraðgerðir Fjölnis þegar á annan tug hesta og knapa féllu niður um ís á Reykjavíkurtjörn.

Fjölnir var á staðnum sem blaðamaður Hesta­frétta og þótti honum björgunaraðgerðirnar ekki vera að bera árangur. Hann stökk því út í vatnið og tók stjórnina.

Í þættinum er Fjölnir nefndur The Iceman, eða Ísmaðurinn, og hann sagður vera ástæðan fyrir því að ekki hafi farið verr.

„Þetta var náttúrlega svaka ævintýri, bæði að hafa lent í þessu og að hafa verið á staðnum. Það var fullt af fólki sem hjálpaðist að þarna en ég tók kannski svolítið völdin og var þar af leiðandi gerður að einhvers konar hetju.“

Fjölnir segist hafa fengið þáttinn sendan til sín á mynddiski frá framleiðendunum og segir þáttinn vera ágæta afþreyingu.

„Þetta var fínt hjá þeim, kannski full amerískt, en ágætur þáttur engu að síður. Það var samt ekki laust við að maður fengi smá aulahroll þegar maður horfði á þetta,“ segir Fjölnir sem ekki varð meint af volkinu í ískaldri tjörninni.

„Nei, ég varð ekkert veikur eftir þetta. Ég varð hressari ef eitthvað er og fór beint heim og barnaði konuna.“

Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni á vefsíðunni hestafréttir.is.

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.