Fótbolti

Julio Cruz á leiðinni frá Inter - Enn óvissa með framtíð Zlatan Ibrahimovic

Ómar Þorgeirsson skrifar
Massimo Moratti.
Massimo Moratti. Nordic photos/Getty images

Massimo Moratti forseti Inter staðfesti að framherjinn Julio Cruz myndi yfirgefa Ítalíumeistarana í sumar en vildi ekkert tjá sig um framtíð Zlatan Ibrahimovic. Svíinn var nú síðast orðaður við Barcelona í skiptum fyrir Samuel Eto'o en Moratti kvað ítalska félagið hvorki þurfa né vilja selja sína bestu menn.

„Við þurfum ekki að selja leikmenn gegn vilja okkar. Staða okkar fjárhagslega er ekki þannig. Við munum hins vegar skoða öll kauptilboð sem berast. Það munu pottþétt leikmenn yfirgefa félagið í sumar vegna þess hvernig fjárhagslegt umhverfi er í boltanum í dag," segir Moratti í samtali við sjóvarpstöð Inter í dag.

Einn leikmaður sem staðfest hefur verið að sé á förum frá félaginu er framherjinn Julio Cruz en hann átti erfitt með að festa sig í sessi undir José Mourinho á síðustu leiktíð.

Hinn 34 ára gamli Argentínumaður hefur hins vegar verið farsæll með félaginu og skorað 49 mörk í 129 leikjum á níu árum og Moratti er sannfærður um að mörg félög munu keppast um hans þjónustu.

„Cruz er búinn að vera frábær fyrir okkur. Það er bara ekki sanngjarnt að leikmaður af hans gæðaflokki spili bara með varaliðinu og því mun hann fara frá Inter í sumar. Það verða pottþétt mörg félög sem keppast um að fá slíkan gæða atvinnumann í sínar raðir," segir Moratti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×