Fótbolti

Balotelli: Er stuðningsmaður AC Milan, vissuð þið það ekki?

Ómar Þorgeirsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Nordic photos/AFP

Framherjinn Mario Balotelli hjá Inter er ekki þekktur fyrir annað en að tala tæpitungulaust og nýjasta dæmið er þegar hann var í heimsókn á stofnunni Don Gnocchi í Mílanó, sem er fyrir hreyfihamlaða krakka á aldrinum 14 til 21 árs.

Hinn 19 ára gamli Balotelli uppljóstraði þar í spjalli sínu við krakkana að hann væri stuðningsmaður AC Milan, erkifjenda Inter, en ítalskir fjölmiðlar voru vitaskuld fljótir að grípa orð hans á lofti og slá þeim upp í fyrirsagnir.

„Ég er stuðningsmaður AC Milan. Hvað? Vissuð þið það ekki?," sagði Balotelli við mikinn fögnuð AC Milan aðdáenda sem voru á svæðinu en hann var jafnframt spurður af hverju hann væri að spila fyrir Inter fyrst hann væri stuðningsmaður AC Milan og það lá ekki á svari.

„Þannig er staðan bara í dag en það getur allt saman breyst," sagði Balotelli glottandi að því er fram kemur í Gazzetta dello Sport.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×