Lífið

Verður með marga fermetra af köngulóarvef

Páll Óskar telur líklegt að hann verðir vampíra í partíinu.MYND/ODDVAR
Páll Óskar telur líklegt að hann verðir vampíra í partíinu.MYND/ODDVAR

„Við erum komin með marga fermetra af köngulóarvef og fullt af alls konar litlum græjum og skrautmunum. Við ætlum að gera okkar allra besta í að breyta Nasa í draugahús – eða draugakastala réttara sagt,“ segir poppkóngurinn Páll Óskar Hjálmtýsson.

Páll Óskar heldur risahrekkjavökupartí á Nasa laugardaginn 31. október. Partíið verður afar veglegt og húsið verður skreytt í anda Hammer-hryllingsmyndanna sem komu fyrst út á fimmta áratug síðustu aldar. „Annars ætlum við líka að nota öll leikhúsmeðulin sem til eru,“ segir Páll.

Hrekkjavökupartí eru afar vinsæl erlendis og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Páll Óskar fagnar því að Íslendingar hafi tekið við sér síðustu ár og byrjað að halda í meiri mæli upp á hrekkjavökuna – hátíð hinna framliðnu. Hann hvetur fólk til þess að vera hugmyndaríkt í búningavali og vonast til þess að flóran verði fjölbreytt.

„Þrátt fyrir að Nasa líti út eins og draugahús, þá er engin skylda að fólk mæti í partíið eins og nornir eða forynjur,“ segir hann. „Það getur verið kostnaðarsamt að breyta sér í vampíru, en góðar hugmyndir fyrir svona grímuböll þurfa ekki að vera dýrar. Ef pabbi þinn var slökkviliðsmaður eða mamma þín hjúkka – eða ef þú þekkir einhvern sem vann á hamborgarastað – þá er ekkert mál að fá einkennisbúningana lánaða og mæta þannig. Ef maður kíkir á þessi partí sem eru haldin erlendis, þar sem allar stjörnurnar mæta, þá er það ímyndunaraflið sem ræður og fólk heldur ekkert endilega í hryllingsmyndabúningana.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.