Viðskipti erlent

Danskir fjársvikarar stunda iðju sína úr fangaklefunum

Dómar og fangelsisvist stöðva ekki danska fjársvikara við að halda áfram iðju sinni. Þeir halda fjársvikunum áfram úr fangaklefum sínum segir í frétt um málið í blaðinu Berlinske Tidende.

Dæmi er tekið af einum alræmdasta fjársvikaranum, Korsör-lögmanninum Poul Fischer sem nú dvelur í Venstre fangelsinu.

Sérgrein Fischer er að stofna skúffufélög sem síðan kaupa önnur félög í rekstri með lánum sem hafa veð í hinu keypta félagi. Síðan tæmir hann öll verðmæti úr hinu keypta félagi og lánadrottnar standa uppi með einungis nafn félagsins í höndunum.

Fischer náði að stofna skúffufélag í fangaklefa sínum og með því að nota gat í fyrirtækjalöggjöfinni tókst honum að stofna röð af félögum utan Danmerkur á vegum skúffufélags síns. Í þeim kallar hann sig svo forstjóra undir nýju nafni þótt honum hafi með dómi verið bannað að koma nálægt fyrirtækjarekstri um langt skeið. Og síðan hófst veislan hjá Fischer á ný.

Berlinske segir að samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum er Fischer langt frá því að vera eini fanginn sem heldur áfram efnahagsglæpum sínum þótt hann sitji bak við lás og slá. Og það ergir skattyfirvöld að þau geta ekkert gert við þessum glæpum fanganna fyrr en skaðinn af starfsemi þeirra lítur dagsins ljós.

Kim Andersen einn af þingmönnum Venstreflokksins segir að þetta sé algerlega óhæft og hann ætlar að taka málið upp við Brian Mikkelsen dómsmálaráðherra Dana.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×