Lífið

Tvær bækur heita Hjartsláttur

Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur og Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur gefa bæði tvö út bækur sem bera nafnið Hjartsláttur. Þau eru sammála um að markhópar þeirra gætu haft gaman af hinni bókinni líka enda sé hjartsláttur sammannlegur.
Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur og Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur gefa bæði tvö út bækur sem bera nafnið Hjartsláttur. Þau eru sammála um að markhópar þeirra gætu haft gaman af hinni bókinni líka enda sé hjartsláttur sammannlegur.

Tvær bækur sem koma út fyrir þessi jól bera sama nafnið, Hjartsláttur. Annars vegar er um að ræða ævisögu Hjálmars Jónssonar dómkirkjuprests og hins vegar unglingabók Ragnheiðar Gestsdóttur. Báðir rithöfundarnir eru sammála um að þetta gæti kannski leitt til skemmtilegs misskilnings, gæti svo farið að óharðnaður unglingur fengi bók um miðaldra prest og einhver af eldri kynslóðinni sögu af ást á örlagatímum.

„Svo segja menn að það sé ekki samkeppni á milli forlaga, þetta er bara skýrasta dæmið um að það er bullandi samkeppni á þessum markaði,“ segir Hjálmar og rifjar upp nokkuð skondna sögu í þessu samhengi. „Þannig var að þegar ég var að fermast þá hét fermingakverið Vegurinn. Eitt fermingasystkinanna fór og keypti það en fannst það heldur dýrt. Enda hafði það keypt reyfara sem hét Gatan.“ Hjálmar leyfir sér þó ekki að efast um að unglingar geti haft gaman af bókinni sinni. „Ég fer reyndar ekkert yfir unglingaástina en bernskan er þarna, þetta er ekki bara bók um gamlan klerk.“ Hjálmar segir sinn hjartslátt dreginn af því að slíkur sláttur hafi fylgt honum alla tíð. „Ég var mjög feiminn sem barn, stamaði og var óframfærinn og því fór hjartað að slá ögn örar þegar maður var kallaður upp í tímum,“ útskýrir Hjálmar og svo sé það hin ástæðan: „Svo var ég tekinn í hjartaaðgerð fyrir nákvæmlega fimm árum, samdi reyndar ljóð sem hét hjartalag og var að íhuga að kalla bókina það,“ en hjartsláttur varð ofan á.

Ragnheiður segist hafa fengið nokkrar ábendingar um þessa skemmtilegu tilviljun. „Já, þetta er mjög skrýtið og nei, það er ekkert sjálfsævisögulegt í minni bók. Sagan er bæði gömul og ný, þetta er um unga elskendur sem eiga ekki að fá að njótast,“ útskýrir Ragnheiður. Hennar hjartsláttur vísar að sjálfsögðu til ástarinnar en einnig búsáhaldabyltingarinnar sem er umhverfi sögunnar. „Sá taktur sem þar var sleginn var hjartsláttur þjóðarinnar og þeirrar frelsisþrár sem þarna kviknaði,“ útskýrir Ragnheiður og bætir því við að það sé kannski ekkert óeðlilegt að tvær bækur með þessu heiti skuli koma út. „Við erum öll manneskjur og þetta sameinar okkur öll, hjartslátturinn.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.