Enski boltinn

Nuddaður upp úr vökva úr legköku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robin van Persie fagnar marki með Cesc Fabregas.
Robin van Persie fagnar marki með Cesc Fabregas. Nordic Photos / Getty Images
Robin van Persie, leikmaður Arsenal, er farinn til Serbíu þar sem hann mun gangast undir nýstárlega meðferð vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í landsleik Hollands og Ítalíu um helgina.

Van Persie er með sködduð liðbönd í ökkla og er talið að hann verði af þeim sökum frá í sex vikur.

Hann segir að hann hafi heyrt góða hluti um meðferðina í Serbíu sem þykir annars óhefðbundin.

„Ég mun hitta konu í Serbíu sem er læknir. Hún hefur ekki sagt mikið um hennar meðferð en ég veit að hún nuddar mann fyrst í langan tíma upp úr vökva úr legköku," sagði van Persie við hollenska sjónvarpsstöð.

„Ég mun ekki hljóta neinn skaða af þessu og ef þetta hjálpar, þá er það fínt."

Þetta kemur fram í enska götublaðinu The Sun í dag en þar er einnig leitað álits hjá öðrum lækni. Hún sagði ólíklegt að þetta myndi bera árangur og að legkakan sem yrði notuð myndi sennilega vera úr stóru dýri, til að mynda hryssu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×