Innlent

Lögmenn LOGOS ekki vanhæfir í Baugsmáli

Gunnar Sturluson
Gunnar Sturluson

Gunnar Sturluson faglegur framkvæmdarstjóri lögmannsstofunnar LOGOS telur stofuna ekki vanhæfa til þess að fjalla um málefni Baugs Group. Erlendur Gíslason einn af eigendum stofunnar var skipaður skiptastjóri Baugs í morgun. Hann segir 55 lögfræðinga starfa hjá stofunni og þó einn starfsmaður sem starfi hjá LOGOS í London hafi eitt sinn unnið fyrir Baug geri það stofuna ekki vanhæfa.

„Við höfum ekki starfað sem lögmenn fyrir Baug og teljum okkur því fullkomlega hæf til þess að leysa úr þessu verkefni," segir Gunnar í samtali við fréttastofu.

Líkt og fram kom í frétt fyrr í morgun er Jakob Möller lögmaður á LOGOS aðstoðarmaður í greiðslustöðvun Stoða hf, þar sem Baugur og tengdir aðilar hafa verið stærstir hluthafar.

„Jakob Möller er sjálfstætt starfandi lögmaður en hefur verið í samstarfi við LOGOS. Fyrir utan það eru Stoðir ekki Baugur og þau mál tengjast því ekki neitt," segir Gunnar aðspurður um tengsl Jakobs.

Gunnar Þór Þórarinsson var nýlega ráðinn til stofunnar en hann starfaði hjá Baugi í London á síðasta ári. Þar áður starfaði hann sem fulltrúi á lögmannsstofu Hreins Loftssonar, stjórnarmanns og hluthafa í Baugi, og eyddi fjórum árum í vinnu við hið svokallaða Baugsmál.

Aðspurður um þá tengingu segir Gunnar að nafni sinn sé starfsmaður á skrifstofu LOGOS í London og það hafi því ekkert með hæfi skrifstofunnar að gera. „Hér starfa 55 lögfræðingar. Erlendur er skipaður skiptastjóri og hann starfar á skrifstofu okkar hér á Íslandi. Þó einn lögfræðingur úti í London hafi unnið hjá Baugi veldur það ekki vanhæfi skrifstofunnar til þess að fjalla um þetta mál."

Stefán Hilmar Hilmarsson fjármálastjóri Baugs segir að LOGOS hafi aldrei nokkurntíma unnið fyrir Baug. Hann telur að það sem dómari hafi aðallega horft til hafi verið skrifstofa LOGOS í London sem kemur sér vel í tengslum við bresku kröfuhafa Baugs. „Þetta er bara ákvörðun dómsins og við hlýtum henni, eins og alltaf."

Aðspurður um aðkomu Gunnars Þórs Þórarinssonar segir Stefán að hjá jafn stóru fyrirtæki og Baugi sé alltaf hægt að finna tengingar inn í lögfræðistofur. „LOGOS hefur aldrei unnið neitt fyrir okkur og ég held að þessi alþjóðlegu tengsl stofunnar hafi ráðið miklu þarna."


Tengdar fréttir

Lögmaður LOGOS skipaður skiptastjóri Baugs

Erlendur Gíslason lögmaður og einn af eigendum lögfræðistofunnar LOGOS var í morgun skipaður skiptastjóri í þrotabúi Baugs Group. Lögfræðistofan annaðist lagalega ráðgjöf og almenna lögmannaþjónustu við Baug áður en félagið fór í þrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×