Skoðun

Umhverfisvá – 350 klukknaslög

Í tilefni af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn verður kirkjuklukkum víða um heim hringt 350 sinnum nk. sunnudag 13. desember kl. 15 að staðartíma til að minna á þá umhverfisvá sem steðjar að jarðarbúum vegna hlýnunar andrúmsloftsins. Hér á landi verður klukkum hringt í mörgum kirkjum landsins.

Hringingin á að tákna þrennt: Í fyrsta lagi þá vá sem steðjar að mannkyni í loftslagsmálum vegna hlýnunar andrúmsloftsins; í öðru lagi vonina sem kristið fólk um allan heim vill minna á frammi fyrir því er ógnar öllu lífi; og í þriðja lagi athafnir sem þarf að grípa til svo að snúa megi þessari óheillaþróun við.

Af hverju 350 sinnum? Það er álit margra vísindamanna og loftslagsfræðinga að magn koltvíildis (CO2) í andrúmsloftinu megi ekki fara yfir 350 hluta á móti milljón (350 prómill). Ef magnið er komið upp fyrir það hlýnar andrúmsloftið með þeim afleiðingum að jöklar bráðna og heimshöfin hækka. Fyrir 200 árum var magn koltvíildis í andrúmsloftinu 275 hlutar af milljón en nú þegar er það komið upp í 387 hluta. Það merkir að minnka þarf losun koltvíildis úr andrúmsloftinu frá því sem nú er.

Núna á sunnudaginn þegar loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna stendur sem hæst í Kaupmannahöfn verður klukkum Frúarkirkju hringt 350 sinnum við lok guðsþjónustu þar, svo og í mörgum kirkjum í Danmörku. Reyndar hefst þessi táknræna athöfn á Fiji-eyjum í Kyrrahafi klukkan þrjú að staðartíma þar sem blásið verður í kuðunga sem eru hefðbundin hljóðfæri eyjarskeggja. Síðan berst hljóðið í vesturátt, klukkum er hringt, blásið í lúðra, barðar bumbur eða slegið á hljóðfæri eftir venju hvers lands um sig.

Með þessari táknrænu athöfn vilja kristnar kirkjur um allan heim taka undir frumkvæði dönsku kirknanna og vara við umhverfisvánni en um leið minna á þá von sem felst í því að þjóðir heims grípi til nauðsynlegra athafna til að draga úr áhrifum manneskjunnar á náttúruna.

Höfundur er prestur.


Tengdar fréttir

Stuðningur við ungmenni

Öllum er ljóst að það eru erfiðir tímar í íslensku samfélagi sem kalla á aðhald og niðurskurð á mörgum sviðum. Í þessu ástandi skapast hætta á að þeir sem ekki hafa bolmagn til að berjast fyrir rétti sínum fari halloka. Skyndilausnir verði leiðandi í ákvörðunum stjórnvalda og stofnana á kostnað framtíðarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×