Innlent

Blóðugir inniskór undir laki

Grettisgata 43 Maðurinn sem ráðist var á hafði búið í húsinu en var fluttur þaðan.
Grettisgata 43 Maðurinn sem ráðist var á hafði búið í húsinu en var fluttur þaðan.
Hæstiréttur hefur dæmt tvær konur og karlmann til að sæta áfram gæsluvarðhaldi vegna líkamsárásar á Grettisgötu í byrjun júní. Til viðbótar sitja þrír karlmenn í gæsluvarðhaldi.

Þegar lögregla kom á vettvang var fyrir maður sem lá hreyfingarlaus í rúmi. Hann var alblóðugur og andlit hans bólgið og marið. Ekki var að sjá blóð í rúmfötunum svo talið er að maðurinn hafi verið lagður þar eftir að honum voru veittir áverkar.

Á vettvangi fann lögregla blóðuga inniskó undir laki í ruslatunnu, merkta tilteknu hóteli sem önnur kvennanna vann á. Þá voru víðs vegar blóðblettir á gangi sem liggur að herberginu sem maðurinn fannst í. Í herberginu sjálfu fannst meðal annars blóðugt júdó- eða karatebelti í vaskinum.

Við yfirheyrslur kom fram að einn þeirra sem eru í gæsluvarðhaldi hafi sagt vitni að hann hefði barið manninn því hann hefði stolið tuttugu þúsund krónum af debetkorti sínu.

Sá sem fyrir árásinni varð slasaðist mjög mikið. Við læknisskoðun sást blæðing inn á heila og heilahimnu, auk þess sem maðurinn var með heilabjúg.

Fólkið er allt frá Litháen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×