Fótbolti

Rétt hjá mér að gefa Terry gult

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claus Bo Larsen og John Terry ræða málin í gær.
Claus Bo Larsen og John Terry ræða málin í gær. Nordic Photos / Getty Images

Danski dómarinn Claus Bo Larsen segir að það hafi verið rétt ákvörðun hjá sér að gefa John Terry, fyrirliða Chelsea, áminningu í leiknum gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu í gær.

Chelsea vann leikinn, 3-1, en Terry verður í banni í síðari leik liðanna sem fer fram á Stamford Bridge í Lundúnum á þriðjudaginn kemur.

Terry fékk gult eftir að hann lenti í samstuði við Pepe Reina, markvörð Liverpool. Larsen taldi að Terry hafi farið óvarlega í baráttu þeirra um boltann.

„Auðvitað er hann aðeins bitur þar sem hann missir af síðari leiknum en hann hefði vel getað forðast það að hlaupa viljandi á markvörðinn," sagði Larsen í samtali við bold.dk í Danmörku. „Þetta var allt útreiknað og ég er ekki í vafa um að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá mér."

Frank Lamprd sagði um atvikið að Terry hafði ekki átt skilið að fá gult. „JT fór í boltann eins og hann gerir alltaf. Ég held að stuðningsmennirnir á vellinum og aðrir leikmenn hafi gert illt verra sem varð til þess að hann fékk gult."

„Það er auðvitað slæmt að missa hann en vonandi komumst við áfram og hann kemur þá með hreinan skjöld í undanúrslitin."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×