Fótbolti

Lampard frá í þrjár vikur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Meiðsli Frank Lampard, leikmanns Chelsea og enska landsliðsins, reyndust minni en í fyrstu var óttast. Hann meiddist á læri á æfingu með enska landsliðinu og flaug heim frá Katar í gær.

Upphaflega var óttast að hann yrði frá í allt að átta vikur en nú er ljóst að hann þarf aðeins að hvíla í þrjár.

„Þetta á ekki að taka lengri tíma," sagði Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, sem hefur misst marga menn úr hópnum fyrir leikinn gegn Brasilíu á morgun.

Fregnir herma að rekja megi meiðsli Lampards vegna slæmrar aðstöðu í flugvélinni sem fór með liðið til Katar. Margir leikmenn ku hafa kvartað yfir verkjum í vöðvum er liðið lenti.

Enska landsliðið leigði vél sem er ætluð fyrir styttri flug og þægindin því ekki þau sömu. Capello var samt ekki að kvarta.

„Ég skil ekki vandamálið. Við flugum með þessari vél til Trinidad sem og til Kasakstan. Þá meiddist enginn og við unnum báða leiki," sagði Capello.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×