Fótbolti

Maldini gæti fylgt Ancelotti til Chelsea

Ómar Þorgeirsson skrifar
Paolo Maldini.
Paolo Maldini. Nordic photos/Getty images

Eftir að Carlo Ancelotti var kynntur til sögunnar sem nýr knattspyrnustjóri Chelsea hafa fjölmargir leikmenn AC Milan verið orðaðir við Lundúnafélagið og nægir í því samhengi að nefna Andrea Pirlo, Clarence Seedorf, Pato og Gennaro Gattuso.

Nú er hins vegar nafn Paolo Maldini komið inn í umræðuna en þessi fertuga goðsögn hjá AC Milan lagði skóna á hilluna frægu í lok síðustu leiktíðar eftir 25 ár hjá aðalliði félagsins.

Ancelotti er sagður vilja fá Maldini annað hvort sem þjálfara eða aðstoðarmann númer tvö, með Ray Wilkins, hjá Chelsea.

Maldini var búinn að gefa það út að hann ætlaði að taka sér góðan tíma til þess að ákveða næsta skref hjá sér á meðan hann væri í fríi í Bandaríkjunum en samkvæmt heimildum Gazzetta dello Sport þá flaug kappinn til London í gær til viðræðna við Chelsea.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×