Enski boltinn

Jafntefli hjá Liverpool og Manchester City

Ómar Þorgeirsson skrifar
Frá leik Liverpool og Manchester City í dag.
Frá leik Liverpool og Manchester City í dag. Nordic photos/Getty images

Liverpool og Manchester City skildu jöfn 2-2 á Anfield-leikvanginum í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni en öll fjögur mörkin komu í seinni hálfleik.

Bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda í leiknum til þess að blanda sér að fullum þunga í toppbaráttuna.

Fyrri hálfleikur var aftur á móti tíðindalítill fyrir utan það að Liverpool missti tvo leikmenn útaf vegna meiðsla. Fyrst Daniel Agger á 7. mínútu og svo Ryan Babel á 18. mínútu. Staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var aftur á móti mjög líflegur og eftir aðeins fimm mínútna leik náði varnarmaðurinn Martin Skrtel að koma Liverpool yfir þegar hann potaði inn aukaspyrnu Steven Gerrard.

Emmanuel Adebayor náði hins vegar að jafna leikinn með góðu skallamarki þegar um tuttugu mínútur lifðu leiks.

Stuttu síðar tóku gestirnir svo forystu í leiknum þegar Stephen Ireland skoraði af stuttu færi eftir góðan undirbúning hjá varamanninum Carlos Tevez.

Þetta reyndist þó skammgóður vermir fyrir City því Liverpool jafnaði leikinn strax í næstu sókn en þar var Yossi Benayoun á ferðinni.

Hvorugu liðinu tókst að skora á lokakafla leiksins og niðurstaðan því sem segir 2-2 jafntefli.

Þetta var sjötta jafntefli Manchester City í röð í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool hefur nú aðeins unnið einn leik af síðustu tíu leikjum í öllum keppnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×