Lífið

Framhaldsmyndir gera sig líklegar

John Malkovich og Josh Brolin eru að íhuga tilboð um að leika í framhaldsmyndum.
John Malkovich og Josh Brolin eru að íhuga tilboð um að leika í framhaldsmyndum.

Aðdáendur kvikmynda frá draumaverksmiðjunni í Hollywood eru fyrir löngu orðnir vanir því að endurvinnsla er lykilorð hjá stóru kvikmyndaverunum. Ef eitthvað skilar peningum aftur í kassann er gullkálfinum síður en svo slátrað heldur er hann alinn á öllu því besta þar til hann springur úr ofáti. Ef svo má að orði komast.

Væntanlega þarf því ekki að koma neinum á óvart að í undirbúningi skuli vera Spider Man 4. Sú þriðja olli reyndar töluverðum vonbrigðum hjá gagnrýnendum en aðsóknin var prýðileg. Og til þess er horft í Hollywood. Samkvæmt fréttum vestanhafs standa nú yfir viðræður við John Malkovich um að hann leiki vonda karlinn Vulture. Slíkt væri mikill happafengur fyrir myndaflokkinn því fáir eru jafn góðir að leika illmenni og Malkovich. Þá er víst einnig orðrómur á kreiki um að Anne Hathaway leiki Feliciu Hardy en samkvæmt myndasögubókunum breytist hún í Svörtu læðuna. Sannarlega spennandi.

Hin framhaldsmyndin sem nú er sögð vera í bígerð kemur hins vegar ögn meira á óvart, því samkvæmt Los Angeles Times er Josh Brolin nú orðaður við Men in Black 3. Mynd númer tvö var afleit en nú á að horfa aftur til fyrstu myndarinnar og gera alvöru geimveruhasargrín. Will Smith er að sjálfsögðu í aðalhlutverkinu en vonandi fær Brolin að njóta sín eftir stórkostlega frammistöðu í No Country for Old Men, W. og American Gangster.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.