Viðskipti erlent

Mótmælt fyrir utan sendiráð Íslands

Um 200 innistæðueigendur Kaupþings mótmæltu fyrir utan íslenska sendiráðið í Brussel í dag. Fólk er óttaslegið um hag sinn og bíður þess að deilan leysist, segir sendiherra Íslands í Brussel. Nú þegar hafa stjórnvöld í Lúxemborg og Belgíu undirritað samkomulag um sölu Kaupþings í Lúxemborg.

Um 20.000 manns áttu innistæður í útibúi Kaupþings í Belgíu. Mótmælin í dag voru friðsæl en hópur innistæðueigenda gekk fyrst að sendiráði Lúxemborgar sem er við sömu götu og það íslenska. Þaðan lá leiðin að húsnæði íslenska sendiráðsins þar sem fulltrúi hópsins hitti Stefán Hauk Jóhannesson sendiherra.

Samningaviðræður hafa staðið yfir frá því fyrir jól um sölu bankans í Lúxemborg, sem er ábyrgur fyrir innistæðunum, til fjárfestingarsjóðs frá Líbýu. Stjórnvöld í Belgíu og Lúxemborg hafa undirritað samning um aðkomu þeirra að því að tryggja innistæður sparifjáreigenda. Enn hafa samningar við kröfuhafa bankans og skilanefnd gamla Kaupþings á Íslandi ekki náðst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×