Enski boltinn

Cudicini á leið í aðgerð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlo Cudicini, leikmaður Tottenham.
Carlo Cudicini, leikmaður Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Carlo Cudicini er á leið í aðgerð eftir að hann lenti í mótorhjólaslysi í gær. Í slysinu brákaðist hann á báðum úlnliðum og meiddist einnig á mjöðm.

Cudicini er á mála hjá Tottenham í ensku úrvalsdeildinni og hann var fluttur á einkasjúkrahús í dag þar sem aðgerðin verður framkvæmd.

„Við erum með færa sérfræðinga sem sjá um þetta," sagði Wayne Diesel, læknir hjá Tottenham. „Þegar aðgerðin verður yfirstaðin verður hægt að meta hversu lengi hann verður frá."

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, sagði alla hjá félaginu óska Cudicini góðs bata. „Okkur fannst öllum mjög leiðinlegt að heyra hvað hafði komið fyrir Carlo. Við erum þó fegnir að meiðsli hans reyndust ekki alvarlegri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×