Innlent

Ólafur: Svæsin fyrirgreiðslupólitík í þágu Eyktar

Mynd/Valgarður Gíslason
„Höfðatorgsmálið ber í senn vott um svæsna fyrirgreiðslupólitík í þágu byggingarfélagsins Eyktar og óráðsíu allra flokka í borgarstjórn nema F-listans," segir í bókun sem Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi, lagði fram á fundi á fundi borgarráðs í gær.

Á fundinum var lagt fram svar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, við fyrirspurn Þorleifs Gunnlaugssonar, borgarfulltrúa VG, um húsnæðismál og málefni Höfðatorgs en þar hefur stórhluti stjórnsýslu borgarinnar aðsetur. Minnihlutinn hefur gagnrýnt kostnað borgarinnar við starfsemina sem er í leiguhúsnæði.

„Það liggur fyrir að flutningur á miklum hluta starfsemi borgarinnar í rándýrt leiguhúsnæði Eyktar ehf. með tilheyrandi samningum til langs tíma, samrýmist ekki hagsmunum borgarbúa," segir í bókun sem Þorleifur lagði fram á fundinum í gær.

Að hans mati er hagkvæmast fyrir borgina að eiga það húsnæði sem hún þarf að nota. „Það liggur því fyrir að einkavæðingarstefna meirihlutans hefur og mun stórskaða borgarbúa," segir Þorleifur.

Fulltrúar meirihlutans vísuðu gagnrýni Þorleifs og Ólafs á bug. „Ekkert er hæft í fullyrðingum minnihlutans og skal vakin athygli á því að einn leigusamningur á Höfðatorgi var gerður í meirihlutatíð þeirra," segir í bókun meirihlutans.

Upphaf málsins megi rekja til áranna 2004 og 2005 þegar unnið var að hugmyndum um að færa starfsemi skipulags- og byggingarsviðs, umhverfis- og samgöngusviðs og framkvæmda- og eignasviðs undir sama þak.

„Talin voru veruleg tækifæri felast í því að þessi svið, auk annarrar starfsemi borgarinnar, nýttu sameiginlegt húsnæði. Metnir voru kostir þess að Reykjavíkurborg myndi byggja sjálf undir starfsemina," segir meirihlutinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×