Handbolti

Kristín: Vaninn að ég komi heim með gullið og hann með silfrið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Kristín Jóhanna Clausen, fyrirliði Stjörnunnar, tók við Íslandsbikarnum þriðja árið í röð eftir 28-26 sigur á Fram í þriðja úrslitaleik liðanna í N1 deild kvenna í handbolta í dag.

Stjarnan var með örugga forustu allan tímann en missti hana síðan niður í blálokin.

„Þetta var alveg öruggt og við vorum farnar að líta á klukkuna síðustu fimmtán mínúturnar í seinni hálfleik. Við hættum þá að sækja og vorum bara að bíða eftir því að þetta væri búið. Þetta var samt öruggt allan tímann í öllum þremur leikjum," sagði Kristín Jóhanna Clausen, fyrirliði Stjörnunnar.

„Við erum með besta varnalið deildarinnar og erum með frábært lið. Sóknarleikurinn getur stundum verið vandræðalegur hjá okkur en við náum þessu með frábærri markvörslu og frábærri vörn. Það er bara þannig að vörn og markvarsla vinna leiki," sagði Kristín.

Stjörnuliðið hefur nú verið á toppnum í þrjú ár og þrátt fyrir miklar mannabreyttingar á þessum tíma.

"Þetta er lið ótrúlegt. Við erum búnar að missa ég veit ekki hvað marga leikmenn og þjálfara en samt stöndum við alltaf uppi sem sigurvegarar. Hin liðin eru óbreytt en samt erum við að vinna," segir Kristín.

„Síðan ég byrjaði í meistaraflokki hefur alltaf verið hefð fyrir að vinna og stefnan hefur alltaf verið sett á að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Maður hefur það með sér núna því sigurvegarar fæðast ekki á einni nóttu. Þetta tekur langan tíma. Við kunnum ekkert annað en að vinna. Ég er svo tapsár að ég vil ekki hugsa til annars en að vinna," segir Kristín.

Kristín er nokkuð sérstakri stöðu því sambýlismaður hennar er Einar Jónsson, þjálfari Framliðsins.

„Ég held að hann sé ennþá fúll eftir síðasta ár. Svona er þetta bara, ég kem heima með gullið og hann með silfrið. Þetta er bara vaninn og við förum ekkert að breyta því," sagði Kristín að lokum í léttum tón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×