Viðskipti erlent

Hollenskum banka slátrað í beinni útsendingu

„Ef þið erum óánægð með órökstudd yfirverð DSB bankans á íbúðalánum sínum skulið þið taka peninga ykkar út úr bankanum í mótmælaskyni." Þetta er nokkurn veginn inntak orða hins virta hollenska hagfræðings, Pieter Lakeman, í beinni útsendingu á besta tíma í hollenska sjónvarpinu í byrjun mánaðarins. Orð Lakeman ollu áhlaupi á DSB sem varð að lýsa yfir gjaldþroti sínu 11 dögum síðar.

Frá því að Lakeman gaf út fyrrgreinda yfirlýsingu og þar til DSB lýsti yfir gjaldþroti sínu hafði sjöundi hlutinn af innistæðum upp á 660 milljarða kr. runnið út af reikningum í bankanum en það var meir en bankinn þoldi. Gjaldþrotinu var lýst yfir í gærdag.

Samkvæmt frétt um málið í Jyllands Posten bíður nú væntanleg málsókn gegn Lakeman. Bæði hollenski seðlabankinn og hollenska fjármálaráðuneytið hafa mælt með slíkri málsókn við kröfuhafa DSB. Lakeman lætur slíkt sér í léttu rúmi liggja.

Lakeman heldur því fram að gjaldþrot DSB hafi verið óumflýjanlegt. Þar að auki hafi seðlabankinn ekki staðið við skyldur sínar þar sem hann hafði vitað um vandamál DSB í meira en eitt ár.

Fjármálafyrirtækið sem Lakeman vinnur fyrir hefur tekið að sér að aðstoða fólk sem lent hefur í fjárhagsvandræðum vegna yfirverða á íbúðalánum í Hollandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×