Enski boltinn

Wayne Rooney: Ég er hræddur við Capello

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney leiðir hér enska liðið inn á völlinn og Fabio Capello sést í bakgrunninum.
Wayne Rooney leiðir hér enska liðið inn á völlinn og Fabio Capello sést í bakgrunninum. Mynd/AFP

Wayne Rooney, lykilmaður Manchester United og enska landsliðið líður ekkert alltof vel í návist Fabio Capello, þjálfara enska landsliðsins ef marka má viðtal hans við enska blaðið The Sun. Capello gerði Rooney að fyrirliða enska landsliðsins í leiknum á móti Brasilíu í vikunni en heldur United-manninum engu að síður á tánum með kuldalegri framkomu.

Rooney segist vera hræddur við Capello og útskýrir það í umræddu viðtali. „Það eru bara þessir litlu hlutir eins og þegar að hann gengur framhjá þér á ganginum," segir Rooney og bætir við:

„Þetta snýst um það hvernig hann ber sig og hvernig hann horfir á þig. Það sést greinilega að hann er ákveðinn maður sem hefur þessa grimmu áru í kringum sig," segir Rooney.

„Stundum þegar hann gengur framhjá manni á ganginum þá lætur hann sem hann sjá mann ekki og það getur verið ógnvekjandi," segir Rooney og hann segir að atvinnumennskan sé nú í fyrirrúmi í enska landsliðshópnum eftir að Ítalinn ógnvekjandi tók við liðinu.

„Þegar við mætum til móts við enska landsliðið þá erum við komnir til að einbeita okkur að fótboltanum en ekki til að tala um listir eða okkar persónulega líf," segir Rooney.

„Lykilatriðið er að það vita allir að ef þeir spila ekki vel þá missa þeir sæti sitt í enska landsliðinu. Svo einfalt er það," sagði Rooney við The Sun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×