Innlent

Kárahnjúkavinnubúðir verða hótel á Langanesi

Tafir á Helguvíkurframkvæmdum urðu til þess að vinnubúðir, sem áttu að fara þangað frá Kárahnjúkum, lentu í höndum hollenskrar konu, sem nú er að breyta þeim í íbúðahótel á Langanesi fyrir sextíu gesti.

Þarna á útverði Íslands í norðaustri, á ysta byggða bólinu þar, Ytra-Lóni, er hugur í íbúunum. Þarna búa hjónin Sverrir Möller og Mirjam Blekkenhorst ásamt fjórum börnum sínum. Hann sér um sauðfjárbúskapinn en hún um ferðaþjónustuna og nú er verið að stækka. Sextán gistirými var orðið of lítið.

Frá Kárahnjúkum hafa þau nú keypt vinnubúðir sem verkfræðingar notuðu, rúmgóðar íbúðir með salerni og eldunaraðstöðu. Og fengu fyrir gott verð. Eftir stækkun verður rými fyrir sextíu gesti.

Það eru mest útlendingar sem gista hjá þeim. Mirjam segir gestina sækja í auðnina, kyrrðina og fuglalífið. Sjálf segist hún hafa flutt til Íslands fyrir 20 árum af mikið til sömu ástæðum. Hún var búin að fá nóg af þéttbýlinu og hraðbrautunum í Hollandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×