Sport

Fyrrum þungavigtarmeistari leggur hanskana á hilluna

Ómar Þorgeirsson skrifar
Sultan Ibragimov.
Sultan Ibragimov. Nordic photos/AFP

Fyrrum WBO-þungavigtarmeistarinn Sultan Ibragimov hefur ákveðið að stíga til hliðar og hætta keppni í hnefaleikum.

Hinn 34 ára gamli Rússi tapaði aðeins einum af 24 bardögum á atvinnumannaferli sínum og það var gegn Wladimir Klitschko í febrúar í fyrra. Ibragimov vann sifurverðlaun á Ólympíuleikum áður en hann ákvað að gerast atvinnuhnefaleikamaður árið 2002.

Árið 2007 vann hann svo Shannon Briggs í bardaga um WBO-þungavigtarbeltið og varði svo titilinn gegn Evander Holyfield áður en hann tapaði gegn Klitschko.

Ákvörðun Ibragimov að hætta eftir aðeins 24 bardaga kemur umboðsmanni kappans í það minnsta ekki á óvart ef marka má nýlegt viðtal við hann.

„Ég var sannfærður um að hann myndi hætta eftir tapið gegn Klitschko vegna þess að hann á nóga peninga og hafði ekki lengur hjartað inni í hringnum líkt og áður fyrr," segir umboðsmaðurinn Leon Margules.





Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×