Enski boltinn

Ferguson fær að stjórna United á móti Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, fær að stjórna sínu liði á móti Everton á laugardaginn þrátt fyrir að hafa verið dæmdur í nýverið í tveggja leikja bann vegna ummæla sinna um Alan Wiley dómara eftir 2-2 jafnteflisleik á móti Sunderland.

Enska knattspyrnusambandið segir bann Ferguson ekki taka gildi fyrr en fjórtán dögum eftir fund aganefndarinnar sem þýðir að hann verður í banni í deildleik á móti Portsmouth 28. nóvember og í deildarbikarleik á móti Tottenham í vikunni á eftir.

Ferguson fékk fjögurra leikja bann en tveir leikjanna eru skilorðsbundnir þar til við lok 2010-11 keppnistímabilsins. Sir Alex fékk að auki 20 þúsund punda sekt.

Ferguson gagnrýndi form Wiley en hefur eftir þetta komið fram og beðist afsökunar á ummælum sínum. Þetta verður þriðja árið í röð sem hann þarf að taka út tveggja leikja bann vegna ummæla sinna um dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×