Lífið

Sýnd í fimm borgum og heimsálfum

Kvikmyndin Heiðin verður sýnd í fimm borgum í þremur heimsálfum á næstunni.
Kvikmyndin Heiðin verður sýnd í fimm borgum í þremur heimsálfum á næstunni.
Kvikmynd Einars Þórs Gunnlaugssonar, Heiðin, verður sýnd í fimm borgum í þremur heimsálfum í nóvember og desember. Myndin ferðast til Indlands þar sem hún tekur þátt í Indian International Film Festival í flokknum Male Voice.

Þetta verður í fyrsta sinn sem íslensk mynd er sýnd á þessari hátíð, sem verður haldin 15. til 22. desember. Heiðin verður einnig sýnd í Scandinavia House í New York í desember. Þar verða níu aðrar íslenskar myndir sýndar í tilefni af þrjátíu ára afmæli Kvikmyndasjóðs Íslands. Að auki verður Heiðin tekin til sýninga á norrænum kvikmyndadögum í Minneapolis í Bandaríkjunum 21. til 23. nóvember ásamt myndunum Skrapp út, Góðir gestir, Bræðrabylta og Síðasti bærinn í dalnum. Sömuleiðis verður myndin sýnd í Kulturhus í Berlín og í kvikmyndahátíð í Terni á Ítalíu þar sem þemað er Fólk og trú.

Með aðalhlutverkin í Heiðinni, sem var frumsýnd hérlendis í fyrra, fara Gunnar Eyjólfsson, Gísli Pétur Hinriksson, Jóhann Sigurðarson og Ísgerður Gunnarsdóttir. Myndin hefur verið sýnd á hinni alþjóðlegu A-hátíð Shanghai International Film Festival og hlotið lofsamlega dóma í hinu virta kvikmyndariti Variety. Leikstjórinn Einar Þór er um þessar mundir að ljúka við gerð heimildarmyndarinnar Norð Vestur, sem segir m.a. frá snjóflóðunum á Vestfjörðum 1995. Á næsta ári mun hann taka sér stutt hlé frá kvikmyndum og skrifa fyrir leikhús, en hann hefur fengið styrk úr leikritunarsjóði Þjóðleikhússins til að skrifa verkið Pinsilon.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.