Lífið

Nýir söngvarar í Drykknum

leiklist Þóra og Gissur komin í gervin sín í Ástardrykknum sem þau syngja á sunnudag.mynd/íslenska óperan
leiklist Þóra og Gissur komin í gervin sín í Ástardrykknum sem þau syngja á sunnudag.mynd/íslenska óperan

Þau Þóra Einarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson verða í aðalhlutverkum í Ástardrykknum á sýningunni næstkomandi sunnudag, 8. nóvember. Syngja þau þá hlutverk Adinu og Nemorinos, eins og ráðgert hefur verið frá upphafi. Á sýningunni á morgun, 7. nóvember, syngja hins vegar Dísella Lárusdóttir og Garðar Thór Cortes aðalhlutverkin, og föstudaginn 13. nóvember verður enn ný útfærsla í hlutverkaskipaninni, því þá syngur Þóra aftur hlutverk Adinu en Garðar Thór syngur hlutverk Nemorinos. Í öðrum hlutverkum í öllum sýningum eru þau Bjarni Thor Kristinsson, Ágúst Ólafsson og Hallveig Rúnarsdóttir.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir miðum á Ástardrykkinn og er það mikið ánægjuefni – enda er hér um glæsilega og stórskemmtilega sýningu að ræða. Uppselt er á allar þær átta sýningar sem upphaflega voru ráðgerðar á Ástardrykknum, auk einnar aukasýningar sem seldist upp á innan við viku. Eru því tvær nýjar aukasýningar komnar í sölu og verða þær föstudagskvöldið 27. nóvember og sunnudagskvöldið 29. nóvember kl. 20. Hlutverk Adinu og Nemorino á sýningunum syngja þau Dísella Lárusdóttir og Garðar Thór Cortes. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.