Innlent

Papeyjarsmygl: Vilja skútumenn áfram í gæsluvarðhald

Skútan Sirtaki sem notuð var til að smygla fíkniefnunum til landsins.
Skútan Sirtaki sem notuð var til að smygla fíkniefnunum til landsins.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, gerir fastlega ráð fyrir því að krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir tveimur mönnum úr Papeyjarsmyglinu svokallaða.

Gæsluvarðhald yfir þeim Jónasi Árna Lúðvíkssyni og Pétri Kúld Péturssyni rennur út í dag en þeir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá 20. apríl. Þeir Jónas Árni og Pétur eru grunaðir um að hafa siglt á gúmmíbát út í Papey til móts við skútuna Sirtaki að sækja rúm hundrað kíló af fíkniefnum.

Fyrir helgi voru fjórir aðrir aðilar er tengjast málinu dæmdir í áframhaldandi gæsluvarðhald. Halldór Hlíðar Bergmundsson, sem einnig er grunaður um að haga siglt á gúmmíbátnum út í Papey, var dæmdur til að sæta gæsluvarðhaldi til 5. júní.

Þeir Rúnar Þór Róbertsson, Árni Hrafn Ásbjörnsson og Hollendingur á fimmtugsaldri voru dæmdir til að sæta gæsluvarðhaldi til 6. júní. Þeir þremenningar voru teknir um borð í skútunni Sirtaki á leið út úr íslenskri lögsögu.

Friðrik Smári segir rannsókn málsins langt komna en þó ekki á lokastigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×