Viðskipti erlent

Sænskir bankar kanna kókaínneyslu nýrra starfsmanna

Sænsku bankarnir Nordea og SEB kanna með prófunum alla nýja starfsmenn sína til að sjá hvort þeir noti kókaín. Hjá Nordea fara allir sjálfkrafa í slíka prófun en hjá SEB er tekið tilviljanakennt úrtak meðal þessara starfsmanna.

 

Í frétt um málið á vefsíðunni e24.no segir að það sé gömul saga og ný að kókaín- og amfetamínneysla sé algeng meðal fjármálafólks og þeirra sem lifi í heimi viðskipta.

 

„Okkar stefna er að lyfjaprófa alla sem við ráðum til bankans af því að okkur gagnast ekkert að ráða eiturlyfjaneytendur," segir Marianne Lien hjá starfsmannahaldi Nordea í Svíþjóð.

 

Viveka Hirdman-Ryrberg fjölmiðlafulltrúi SEB segir að þar til nýlega hafi bankinn lyfjaprófað alla nýráðna starfsmenn en að ekkert hafi komið út úr þeim prófunum. „Núna erum við því með tilviljanakennt úrtak," segir Ryrberg.

 

Í Handelsbanken eru starfsmenn ekki prófaðir fyrir eiturlyfjaneyslu. Hinsvegar er öllum yfirmönnum þess banka gert skylt að sækja námskeið þar sem þeir læra að þekkja einkenni hjá þeim starfsmönnum sem misnota eiturlyf.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×