Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á olíu hríðfellur á mörkuðum í dag

Verð á hráolíu hríðféll á mörkuðum í kjölfar þess að OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, ákváðu að fresta enn ákvörðun um að hægja á framleiðslu sinni.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að sérfræðingar höfðu búist við að OPEC myndi skera niður framleiðsluna um 1,5 milljón tunnur á dag. Til samanburðar má geta þess að Bandaríkin, langstærsti notandi olíu í heiminum nota um það bil 20 milljón tunnur af olíu á dag.

Samkvæmt áætlun OPEC sem samþykkt var í desember síðastliðnum ætti OPEC nú að vera að framleiða um 800 þúsund færri tunnur á dag en nú er raunin. OPEC ríkin standa að baki um það bil 40% af allri olíuframleiðslu heimsins og hafa þau minnkað framleiðslu sína um 4,2 milljón tunnur á dag síðan í september til að stemma stigu við verðlækkun á mörkuðum eftir því sem eftirspurn hefur minnkað.

Olíuverð er nú komið niður í 43.6 dollara á tunnuna og féll um tæplega 6% í kjölfar ákvörðunar OPEC. Olíuverð hefur nú lækkað um 70% frá því að það náði hámarki í 147 dollurum þann 11.júlí síðastliðinn. Þessa miklu verðlækkun má rekja til fjármálakreppunnar sem hefur gert það að verkum að bæði eftirspurn og framleiðslugeta hefur dregist saman.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×