Innlent

Tugmilljóna kosningabarátta skilar sér í ESB könnun

Ragnar Arnalds.
Ragnar Arnalds.

„Það er alltaf spurning um það hvernig spurt er," segir Ragnar Arnalds, formaður Heimssýnar, um skoðana könnun Gallups Capacent sem RÚV greindi frá í kvöld. Þar kom fram að 61,2 prósent vilja fara í aðildarviðræður við ESB. Þá voru rétt tæp 27 prósent sem voru alfarið á móti því. Tæp tólf prósent tóku ekki sérstaka afstöðu til málsins.

Ragnar bendir á að stutt sé síðan Fréttablaðið birti könnun þar sem meirihluti reyndist á móti inngöngu í ESB. Þar var einfaldlega spurt hvort viðkomandi væri hlynntur því að Ísland gengi í Evrópusambandið.

„Ef fólk er spurt hvort það vilji ganga í sambandið þá er svarið annað," segir Ragnar en hann bendir á að niðurstaðan nú sé einnig afrakstur mikillar kosningaherferðar sem hann tengir meðal annars við heimasíðuna sammála.is. Sú síða er þverpólitísk og vill reyna á aðildarviðræður.

Ragnar telur tugmilljóna auglýsingabarátta sé einfaldlega að skila sér í góðri niðurstöðu ESB-sinna í könnun Gallups.

„Það er líka ákveðin forvitni sem ræður þessari niðurstöðu," segir Ragnar og bendir á að þeir sem vilja rétt kíkja í pakkann, eins og hann orðar það, svari nú játandi, sem og þeir sem eru einarðir stuðningsmenn þess að fara í aðildarviðræður.

Heimssýn er alfarið á móti aðildarviðræðum, þeir hafa barist fyrir könnunarviðræðum þess í stað.

„Það er ekkert sem kemur á óvart i þessu," segir Ragnar og bætir við að hann óttist ekki niðurstöðuna verði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Þjóðin mun alltaf kolfella þetta," segir hann að lokum óttalaus um framtíð Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×