Handbolti

Haukar hituðu upp með „Bad Boys" myndbandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Frey Brynjarssyni er margt til lista lagt.
Frey Brynjarssyni er margt til lista lagt. Mynd/Anton

Það vakti nokkra athygli þegar Rúnar Kárason, leikmaður Fram, líkti Haukaliðinu við „Bad Boys" lið Detroit Pistons. Það lið skartaði mörgum snillingum sem flestir áttu það sameiginlegt að vera harðir í horn að taka.

Freyr Brynjarsson Haukamaður er einn af þessum Haukamönnum sem er vanur því að taka hraustlega á andstæðingum sínum. Hann segir Haukana alls ekki hafa verið móðgaða yfir þessum ummælum.

„Alls ekki. Okkur líkaði það meira að segja bara nokkuð vel. Við erum alls ekki gróft lið en við tökum alltaf vel á andstæðingnum," sagði Freyr sem greip ummælin á lofti og hefur farið með það alla leið.

„Ég bý stundum til myndbönd fyrir leiki og gerði það núna. Bjó til eitt „Bad Boys" myndband með klippum af Pistons-gaurunum og með „Bad Boys" laginu undir. Það sló í gegn hjá strákunum," sagði Freyr en Haukar munu einnig spila „Bad Boys" lagið í kvöld þegar þeir hita upp.

Margir spá því að það muni sjóða upp úr í kvöld enda hefur verið mikill hiti í fyrri viðureignum liðanna.

„Það getur vel verið að það sjóði upp úr. Frömurum finnst ekki gaman að láta lemja sig. Við vitum að það pirrar þá. Annars eru Anton og Hlynur að dæma og þeir ættu að ná að halda þessu niðri," sagði Freyr sem bíður spenntur eftir leiknum í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19.30 og verður í beinni útsendingu á Rúv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×