Handbolti

Kári: Sannfærandi hjá Bad Boys

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður Hauka.
Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður Hauka. Mynd/Daníel
Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður Hauka, var í skýjunum eftir níu marka sigur sinna manna á Fram í oddaleik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni N1-deildar karla.

Með sigrinum tryggðu Hauka sér sæti í úrslitarimmunni og mæta þar bikarmeisturum Vals.

„Bad Boys tóku þetta sannfærandi í kvöld," sagði hann og hló en Rúnar Kárason, leikmaður Fram, líkti liði Hauka við frægt lið Detroit Pistons á níunda áratug síðustu aldar í samtali við Vísi í vikunni.

„Við mættum vel stemmdir til leiks og vorum greinilega tilbúnir í verkefnið. Þegar korter var eftir vorum við komnir með ellefu marka forsystu og þeir búnir að skora fimmtán mörk. Vörnin var að halda sínu vel og Birkir varði svo gríðarlega vel í markinu. Þeir áttu hreinlega ekki möguleika og þá sérstaklega ekki í langskotunum sínum."

„Það var í raun sama hvar við mættum þeim - við höfðum alltaf yfirhöndina."

Kári segist spenntur fyrir úrslitarimmunni gegn Val.

„Það verða án efa hörkuleikir. Bæði lið eru sólgin í landa bikarnum og við ætlum okkur að halda áfram á okkar braut. Við erum búnir að fá gula spjaldið í úrslitakeppninni og ætlum ekki að fá það aftur."

Spurður hvort hann eigi von á því að úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn muni ráðast í oddaleik var svarið einfalt.

„Nei, það fer ekki í oddaleik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×