Handbolti

Dagur og fé­lagar á­fram á sigurbraut en Gummersbach tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Gautason skoraði fjögur góð mörk fyrir Montpellier í kvöld.
Dagur Gautason skoraði fjögur góð mörk fyrir Montpellier í kvöld. Mynd: Montpellier

Gummersbach átti veika von á þvi að tryggja sig beint inn í átta liða úrslit Evrópudeildar karla í handbolta í kvöld en tap þýðir að lærisveinar Guðjón Vals Sigurðssonar fara í umspilið. Íslendingaliðið Montpellier er aftur á móti komið í átta liða úrslitin.

Gummersbach tapaði með tveggja marka mun á móti þýska liðinu Flensburg, 32-30, en hefði þurft að vinna sex marka sigur til að vera með betri innbyrðis stöðu. Flensburg vann því riðilinn og er komið í átta liða úrslitin.

Elliði Snær Viðarsson var með þrjú mörk úr sex skotum fyrir Gummersbach í leiknum en markahæsti leikmaður liðsins var Miro Schluroff með tíu mörk. Danirnir Emil Jakobsen (8 mörk) og Lukas Jörgensen (6 mörk) voru markahæstir hjá Flensburg.

Gummersbach er nú í umspil um fögur laus sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Dagur Gautason og félagar í franska liðinu Montpellier unnu eins marks útisigur á svissneska liðinu HC Kriens-Luzern, 32-31. Montpellier var yfir allan tímann og sjö mörkum yfir í hálfleik, 20-13. Svisslendingarnir komu til baka og voru næstum því búnir að ná jafntefli undir lokin.

Dagur stóð sig vel og skoraði fjögur mörk úr fimm skotum í leiknum. Hann var þriðji markahæsti leikmaður franska liðsins en aðeins Sebastian Karlsson (7 mörk) og Yanis Lenne (5 mörk) skoruðu fleiri mörk.

Montpellier var búið að vinna riðilinn fyrir leikinn og þar með var sætið í átta liða úrslitunum tryggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×