Íslenski boltinn

Umfjöllun: FH Íslandsmeistari í fimmta sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fyrirliðinn Davíð Þór Viðarsson býr sig undir að lyfta bikarnum á loft.
Fyrirliðinn Davíð Þór Viðarsson býr sig undir að lyfta bikarnum á loft. Mynd/Daníel

FH varð í dag Íslandsmeistari karla í knattspyrnu annað árið í röð og í fimmta sinn í sögu félagsins.

FH vann í dag 2-0 sigur á Val á heimavelli sínum og er því enn með fimm stiga forystu á KR þegar aðeins ein umferð er eftir óleikin.

Atli Guðnason var hetja FH-inga en hann skoraði bæði mörk liðsins í dag, bæði í fyrri hálfleik.

FH varð fyrst Íslandsmeistari árið 2004 og hefur FH því orðið Íslandsmeistari öll árin síðan þá - nema árið 2007 er Valsmenn fögnuðu titlinum.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, hefur stýrt Hafnarfjarðarliðinu til sigurs í deildinni bæði árin sín sem þjálfari en hann var fyrirliði liðsins og leikmaður í hin þrjú skiptin sem FH varð Íslandsmeistari.

Ekki áttu margir von á því að Valsmenn myndu gera FH-ingum lífið erfitt í dag enda liðinu gengið illa í deildinni að undanförnu.

Það kom því fáum á óvart þegar að Atli kom FH yfir á elleftu mínútu leiksins eftir að hafa fengið boltann frá Ólafi Páli Snorrasyni. Boltinn fór reyndar af Ian Jeffs eftir fyrirgjöf Ólafs og rann fyrir fætur Atla sem skoraði með hnitmiðuðu skoti í vinstra markhornið.

Leikurinn var nokkuð fjörlegur eftir þetta og neituðu Valsmenn að gefast upp. Þeir fengu þó nokkur tækifæri til að jafna metin og ómögulegt að segja hvernig leikurinn hefði þróast hefði það gerst.

Helgi Sigurðsson fékk tvö dauðafæri. Í fyrra skiptið var hann kominn einn gegn Gunnari Sigurðssyni, markverði FH, sem sá við honum þó svo að Helgi hafi haft nægan tíma til að athafna sig.

Undir lok fyrri hálfleiksins náði Helgi að fylgja eftir skoti Matthíasar Guðmundssonar sem var varið en nú var það varnarmaður sem varði á marklínu frá Helga.

En FH-ingar fengu líka sín færi í fyrri hálfleiknum. Ólafur Páll slapp einn inn fyrir vörn Vals en rétt eins og Helgi náði hann ekki að gera sér mat úr því. Kjartan Sturluson greip boltann er Ólafur ætlaði að lyfta knettinum yfir hann.

Eini maðurinn á vellinum sem virtist vita hvað hann ætti að gera fyrir framan mark andstæðingsins var Atli Guðnason. Á lokamínútu fyrri hálfleiksins fékk hann boltann í teignum eftir að Matthías Vilhjálmsson skallaði hann niður. Atli sýndi mikla yfirvegun, lék á Kjartan og renndi boltanum í autt markið.

Í síðari hálfleik sýndu FH-ingar að þeir geta líka varist vel og spilað af yfirvegun. Það var það sem þeir þurftu. Valsmönnum gekk ekkert að brjóta vörn FH-inga á bak aftur og komu sér ekki inn í leikinn fyrr en á síðasta stundarfjórðungnum.

FH fékk nokkur færi til að bæta við þriðja markinu en ekkert stórhættulegt þó. Besta færi hálfleiksins fengu Valsmenn undir lok leiksins er þeir komu skoti að marki eftir mikið klafs í teig FH-inga. Dennis Siim var hins vegar á réttum stað og þrumaði knettinum fram af eigin marklínu.

Tíminn vann með FH-ingum og þeir fögnuðu vel og innilega þegar að Erlendur Eiríksson dómari flautaði til leiksloka. Þeir þurftu bara að klára sitt og gerðu það með stæl. Valsmenn voru fljótir að forða sér inn í klefa á meðan að FH-ingar tóku við bikarnum út á velli.

FH - Valur 2-0

1-0 Atli Guðnason (11.)

2-0 Atli Guðnason (45.)

Kaplakrikavöllur. Áhorfendur: 2.418

Dómari: Erlendur Eiríksson (7)

Skot (á mark): 15-10 (5-6)

Varin skot: Gunnar 5 - Kjartan 3.

Horn: 9-5

Aukaspyrnur fengnar: 14-10

Rangstöður: 6-1

FH (4-3-3):

Gunnar Sigurðsson 7

Pétur Viðarsson 6

Dennis Siim 7

Tommy Nielsen 8

Hjörtur Logi Valgarðsson 6

Matthías Vilhjálmsson 6

Davíð Þór Viðarsson 7

Tryggvi Guðmundsson 6

(77. Björn Daníel Sverrisson -)

Ólafur Páll Snorrason 6

(81. Alexander Söderlund -)

Atli Viðar Björnsson 6

Atli Guðnason 8 - maður leiksins

Valur (4-3-3):

Kjartan Sturluson 6

Baldur Aðalsteinsson 4

(60. Guðmundur Viðar Mete 5)

Reynir Leósson 5

Atli Sveinn Þórarinsson 5

Bjarni Ólafur Eiríksson 6

Ian Jeffs 5

Baldur Bett 5

(67. Marel Baldvinsson 5)

Sigurbjörn Hreiðarsson 5

Matthías Guðmundsson 5

Helgi Sigurðsson 4

Arnar Sveinn Geirsson 5

(84. Viktor Unnar Illugason -)

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins. Lesa má lýsinguna hér: FH - Valur.




























Fleiri fréttir

Sjá meira


×