Enski boltinn

Fyrsti svarti dómarinn í ensku úr­vals­deildinni lærir að ganga á ný

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Uriah Rennie hlær að mótmælum Robins van Persie.
Uriah Rennie hlær að mótmælum Robins van Persie. getty/Laurence Griffiths

Uriah Rennie, sem var fyrsti svarti dómarinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, er að læra að ganga á ný eftir veikindi.

Hinn 65 ára Rennie var staddur í fríi í Tyrklandi í fyrra þegar hann fann sáran verk í bakinu. Hann hætti að geta sofið og þegar hann kom heim úr fríinu gat hann vart gengið.

Ekki var því annað hægt að gera en að leggja Rennie inn á spítala. Og þar var hann í fimm mánuði.

Rennie glímir við sjaldgæfan taugasjúkdóm og missti hreyfigetuna í fótunum. Hann er nú kominn aftur heim til sín og byrjaður að læra að ganga á nýjan leik. 

Rennie er í stöðugri meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara og segist geta hreyft fæturna á ný. Enn er þó langt í land hjá Rennie sem var þekktur fyrir að vera í frábæru formi þegar hann var að dæma og iðkaði meðal annars bardagalistir.

„Ég veit ekki hvort ég get gengið eðlilega en ég veit hvað ég þarf að gera til að reyna að og þú mátt aldrei gefast upp,“ sagði Rennie í samtali við BBC.

Hann komst í sögubækurnar þegar hann dæmdi leik Derby County og Wimbledon 1997. Rennie varð þá fyrsti blökkumaðurinn sem dæmdi leik í efstu deild fótboltans á Englandi. Hann dæmdi í ensku úrvalsdeildinni til 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×