Spánverjinn Rafael Nadal átti ekki í teljandi erfiðleikum gegn Frakkanum Richard Gasquet í fyrstu umferð Opna bandaríska meistaramótsins í tennis sem nú stendur yfir.
Nadal er allur að koma til eftir að hafa jafnað sig á hnémeiðslum en Gasquet var sjálfur aðeins að spila sitt annað mót í sumar eftir að hafa verið dæmdur í tveggja og hálfs mánaða keppnisbann fyrir kókaínneyslu á Miami Master mótinu í mars.
Nadal mætir Þjóðverjanum Nicolas Kiefer í annarri umferð mótsins en Opna bandaríska meistaramótið er eina „grand slam" mótið sem hinn 23 ára gamli Spánverji hefur ekki unnið á ferlinum því hann hefur þegar unnið Opna ástralska meistaramótið, Opna franska meistaramótið og Wimbledon mótið.