Innlent

Gaukur mátti kalla Ómar rasista

Gaukur Úlfarsson.
Gaukur Úlfarsson.

Gaukur Úlfarsson var í dag sýknaður í Hæstarétti af meiðyrðakæru Ómars R. Valdimarssonar. Hæstiréttur snýr því við dómi héraðsdóms sem fann Gauk sekann fyrir ummæli sem hann lét falla á netinu.

Málið á rætur sínar að rekja til skrifa Gauks á bloggsíðu sinni þar sem hann fjallaði um Ómar undir fyrirsögninni „Aðal rasisti bloggheima".

Ómar hafði samband við Gauk vegna þessa og bað hann um að fjarlægja færsluna. Þegar Gaukur varð ekki við því ákvað Ómar að höfða mál. Hann fór fram á tvær milljónir í skaða- og miskabætur auk þess sem hann krafðist þess að Gaukur greiddi honum átta hundruð þúsund krónur fyrir birtingu á dómsúrskurði í þremur dagblöðum.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur var Gaukur dæmdur til þess að greiða Ómari 300 þúsund krónur í miskabætur auk hálfrar milljónar í málskostnað.

Hæstiréttur taldi, að skoða mætti skrif Gauks sem lið í almennri umræðu um stjórnmál í aðdraganda alþingiskosninga, en þau birtust í miðli sem opinn var hverjum sem vildi kynna sér þau. Ómar hafi tekið þátt í þeirri umræðu á sama vettvangi. Dómurinn var á því að ummæli Gauks hafi verið ályktanir sem hann hafi talið sig geta reist á orðum Ómars og yrði því ekki slegið föstu að þær hafi verið með öllu staðlausar, eins og það er orðað.

Hæstiréttur snéri því við dómi héraðsdóms og ákvað að ummælin skyldu ekki ómerkt. Af því leiðir að dómurinn tók heldur ekki aðrar kröfur Ómars til greina og sýknaði Gauk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×