Skoðun

Slæm staða Hafnar­fjarðar

Illa hefur verið haldið á fjármálum Hafnarfjarðarbæjar á undanförnum árum. Dapurlegt er að meirihlutinn í bæjarstjórn skyldi ekki haustið 2007 taka tilboði Orkuveitu Reykjavíkur í eignarhlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja eins og sjálfstæðismenn lögðu til og sveitarfélög á Suðurnesjum höfðu gert. Þannig hefði verið hægt að lækka skuldir bæjarins um 7,5 milljarða króna, en þá voru langtímaskuldir um 10 milljarðar króna. Samfylkingin hikaði og bærinn tapaði. Óljóst er á þessari stundu hvort Orkuveitan geti keypt hlutinn enda virðist hún hvorki vilja það né geta og ekki mega það samkvæmt úrskurði samkeppnisráðs. Tilboð Orkuveitunnar var auðvitað barns síns tíma, sett fram á hápunkti þenslunnar í þjóðfélaginu. Synd að Samfylkingin skyldi ekki hafa borið gæfu til að samþykkja það strax.

Í stað þess að Hafnarfjörður hefði grætt 7,5 milljarða króna á sölunni sem hægt hefði verið að nýta í niðurgreiðslu erlendra lána á meðan krónan var enn sterk, þá var tekið 3 milljarða erlent lán. Margir muna þegar bæjarstjórinn hreykti sér af því í fjölmiðlum hve hagstætt lánið hefði verið. Þetta lán stendur nú í 6 milljörðum. Í stað þess að vera með hóflega skuldsettan bæjarsjóð nema heildarskuldir Hafnarfjarðar nú um 34 milljörðum króna. Í stað þess að vera í hvað sterkastri stöðu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á bæjarsjóður í vandræðum með að greiða reikninga.

Mikil er fjármálasnilld meirihluta Samfylkingarinnar sem stærði sig af því að árið 2008 hafi verið mesta framkvæmdaár í sögu Hafnarfjarðarbæjar. Við sjálfstæðismenn vöruðum við þessari framkvæmdagleði á þenslutímum og nú er því miður lítið svigrúm til að fara í framkvæmdir. Bæjarstjórinn segir í sjónvarpsfréttum að allar framkvæmdir ársins 2008 hafi verið fjármagnaðar af eigin fé. Reikningar bæjarins sýna annað.

Fyrsta verk meirihluta Samfylkingarinnar nú á nýju ári var að taka nýtt 400 milljóna króna lán. Það lán fæst hjá Nýja Kaupþingi og er verðtryggt með 9,8% vöxtum! Athyglisvert er að til þess að fá lánið þurfti Hafnarfjarðarbær að veðsetja tvær af fasteignum sínum. Þessi lántaka og lánakjör segja meira en mörg orð um stöðu bæjarsjóðs Hafnarfjarðar í dag.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×